Tuesday, April 29, 2008

Hvað er góður kennari?

Kennarar koma í öllum stærðum og gerðum. Við erum alltaf að læra og þegar við lærum eitthvað sem við teljum okkur hafa umfram aðra, finnst okkur oft skemmtilegt að miðla af visku okkur. Netið er fullt af alls konar kennsluefni sem fólk hefur miðlað. Sumt er miður gott, en annað er bara ansi gott og skemmtilegt. Ég rakst á þetta á youtube og bíð hér í smá dönskukennslu.

Heimavinna

Eftir að hafa verið lengi í háskólanámi, finnst manni heimavinna vera mikill partur af náminu. Kannski er það vegna þess að ég er að verða gömul kona og vil gera vel, fyrst að ég nú að þessu á annað borð. En umræðan um heimavinnu yfir höfuð er á öðrum nótum. Alls staðar er verið að tala um hvort að skólinn eigi að fara niður á það plan sem nemendur virðast flestir vera á, þ.e.a.s. gera ekki heimavinnuna sína. Þau eru of upptekin við annað, s.s. félagslíf, íþróttir og vinnu. Hvernig yrði háskólaumhverfið ef að nemendur lærðu aldrei heima?
Rannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt að það hefur ekkert upp á sig að setja heimavinnu fyrir nemendur á aldrinum 6-11 ára. Krakkar sem hafa heimavinnu á þeim aldrei, sýna ekkert betri árangur en þau sem ekki þurfa að vinna heima. En þessar rannsóknir sýna líka að það er munur á eldri nemendum sem læra heima og þeim sem aldrei gera það. Þannig að ég er að velta fyrir mér hvort að maður eigi að túlka rannsóknirnar þannig að skólarnir eigi ekki að láta yngri nemendur fá heimavinnu (því það veldur óþarfa stressi) og demba þeim á þegar þau verða 12 ára; eða hvort að þau eigi að vera alltaf með heimavinnu (það skaðar kannski ekkert) til að venja þau við heimalærdóminn frá byrjun. 
Ef að maður er búin að vera í skóla í 6 ár (1-6bekk) án þess að læra heima og samt fengið fínar umsagnir/einkunnir, af hverju ætti maður þá allt í einu að fara að læra heima í staðinn fyrir að leika sér?  Er ekki verið að biðja nemendur um að sýna af sér óeðlilegan aga.  Krakkar vilja leika sér og eru ekkert að spá í framtíðina, fyrr en kannski í 10.bekk. Mín skoðun er sú að smá heimavinna sé nauðsynleg frá byrjun, bara til að venja þau við. Þannig að þegar þau koma svo upp í framhaldsskólana og háskóla, séu þau með rútínu sem hjálpar þeim að takast á við námið.  En þetta er mín skoðun og alls ekki allra.  Fjölmiðlar blása upp fréttir af óþarfa heimavinnu og láta aldrei fylgja með að hún sé nauðsynleg eldri nemendum. Það er líka meiri frétt að skólarnir séu að brjóta niður nemendur með óeðlilegri heimavinnu, heldur en að hún komi þeim til góða.  

Tæknibúnaður grunnskóla

Eftir margra ára skólasetu (í HÍ) þar sem við lærum að nýta okkur nýjustu tækni við gerð verkefna og fyrirlestra, leið mér eins og ég hefði hoppað 50 ár aftur í tímann þegar ég byrjaði sjálf að kenna.  Í stofunni minni eru nemendaborð og stólar, kennaraborð og stóll, tafla og talva fyrir mig.  Það  tæki er það eina nýja í stofunni frá því ég sjálf byrjaði í skóla fyrir mörgum árum.  Talvan er ágæt til síns brúks, en hún gagnast nemendum ekkert.  Ég reyndi því að fá tölvuverstíma fyrir nemendur mína, en viti menn, það er ekki hægt. Yngri nemendurinir eiga tölvuverstímana og við í unglingadeildinni getum pantað einn og einn tíma, ef að við erum snögg, þ.e.a.s á þeim tímum sem hinir eru ekki að nota það. Það kemur þannig út að ég gæti farið með alla bekkina mína, nema 10 bekkinn. Hinum kenni ég nefnilega kl. 8 á morgana einhvern tímann í vikunni og þá er laust flesta daga.  En 10. bekknum kenni ég bara kl. 9.40 og þá er tölvuverið upptekið alla vikuna.
Ég hef reynt að koma þeim skilaboðum áfram að þetta sé nú afleitt ástand. Flestir eru alveg sammála því, t.d. enskukennarinn. En á móti mér kennir eldri herramaður, sem virðist lítið hrifin af tölvuverskennslu.  Þar sem hann er fagstjórinn minn, þá er spurning hve mikið mark sé tekið á óskum mínum. Ég sé ekki alveg fyrir mér að hann fari að berjast fyrir tölvuverstímum sem hann veit ekkert hvað hann á að gera við.
Það er skelfilegt að vera nýr kennari með alla þennan lærdóm á herðunum og geta ekkert notað það.  Taflan og tússið er það sem bliver.

Tuesday, February 26, 2008

John Dewey

John Dewey (1859-1952) er kenndur við framfarastefnuna en tengist ennig hygsmíðahyggjunni þar sem hann lagði áherslu á að virkja nemendur og einnig á að efnið vekti áhuga nemenda. Einkunnarorð Deweys voru „learning by doing“.
Líkt og Vygotsky lagði Dewey mikla áherslu á félagslega samvinnu milli barnins (nemandans) og þroskaðri einstaklinga (kennara, þroskaðri nemenda). Einnig sagði hann að umhverfi og samfélagið hefðu áhrif á þroska einstaklingsins.
Dewey vildi meina að skólinn ætti að vera lifandi samfélag þar sem barnið væri virkur þáttakandi og þekking hans og samvinna við aðra væru lykilatriðin.
Þó að lögð sé áhersla á samvinnu nemenda, þá hefur kennarinn ýmislegt að segja. Hann ræður ekki öllu, en hann ber ábyrgð á nemendurnir séu með verkefni við hæfi, að þeir séu að fá verkefni sem geti þroskað þau og að námið sé innan þess ramma sem þeim sé ætlað að læra. Kennarinn á líka að sjá til þess að viðfangsefnið sé þess eðlis að það veki áhuga nemandans á að fræðast og hvetja nemandinn til að koma með eigin hugmyndir. Skapandi þörf nemendanna er því mikilvægur hlekkur í hugmyndafræði Deweys.
Dewey líkir kennaranum við leiðangursstjóra sem stýri verkefninu en öll orkan eigi að koma frá nemendunum sjálfum.

Líkt og hugmyndir Vygotskys, eru hugmyndir Deweys náskyldar hugmyndum Gardners um fjölgreindir.

Lev Vygotsky

Lev Vygotsky (1896-1934) var þeirrar skoðunar að félagslegt og menningarlegt umhverfi barna hafi mest áhrif á mótun þeirra. Að börnin læri af þeim sem vita meira en þau, hvort sem það eru fullorðnir eða önnur börn sem standa þeim framar, þannig hafi félagsleg reynsla áhrif á hvernig þau túlki umhverfið.
Vygotsky er frægur fyrir það sem kallað er „Zone of proximal development“ sem útleggst á íslensku „svæði mögulegs þroska“, en hér á hann við að barnið þroskist mest þegar það á í samskiptum við fullorðna eða aðra sem standa þeir framar, þ.e að þetta svæði sem liggur á milli þess sem barnið getur sjálft gert og þess sem það getur gert með fullorðnum eða þroskaðri félögum. Vygotsky leggur því mikla á að nám eigi sér stað í félagslegu samhengi, ólíkt Piaget og fleirum sem töldu að þroskinn væri algildur og að umhverfið og félagslega athafnir hefðu litil áhrif á þroska barnanna.
Hlutverk kennarans eða hins fullorðna er að fylgjast með barninu og gera sér grein fyrir hvar barnið stendur og hvernig þurfi að örva það eða á hvaða sviðum þarf að auka þekkingu þess. Kennarar sem vita hvar einstaklingarnir standa eru betur undir það búnir að vinna með þá á þessu svæði mögulegs þroska. Kennarans er að skapa ríkt félagslegt umhverfi sem hvetur nemendur til að bæta við sig þekkingu (nám) í gegnum samskipti við kennarann og betur stæða samnemendur sína.

Hugmyndir Vygotksy falla að hugsmíðahyggjunni sem er hugmyndafræði sem byggir á virkni barnanna og að þau noti eigin reynsluheim til að auka þekkingu sína og noti gagnrýna hugsun þegar þau leita sér að upplýsingum.

Hugmyndir Vygotsky falla vel að kenningum Howard Gardner um fjölgreindir

Sunday, February 10, 2008

Vefleiðangur

Eitt af mörgu sem við höfum verið að gera hér í skólanum, er að búa til vefleiðangur. Ekki það að ég hafi vitað hvað svoleiðis var áður en ég byrjaði, en nú veit ég að þetta er frábært tæki.
Við vorum tvær sem ákváðum að gera þennan vefleiðangur saman, ég úr dönskunni og hún úr þýskunni. Þar sem við erum báðar að vinna saman að verkefni í öðru fagi, reyndar með fleira fólki, ákváðum við að nýta okkur það og gerðum vefleiðangur um efni sem við vorum búin að velja fyrir hitt fagið. Það voru napóleonsstríðin sem urðu fyrir valinu, þar sem við sem erum í þessum hópi komum úr ensku, þýsku og dönsku og þessar þjóðir eiga m.a. þetta stríð sameiginlegt.
Það var mjög skemmtilegt að gera leiðangurinn og það verður enn skemmtilegri að halda áfram með hann og útfæra hann fyrir öll þessi fög. Við gætum meira að segja bætt sögunni við þetta og þannig fengið fjórða fagið með í pottinn. 
Svona vefleiðangrar eru líka frábærir að því leiti að þegar maður er búin að setja svona verkefni út á netið, þá getur það haft jákvæð áhrif á starf annarra kennara og gefið þeim hugmyndir. En ég er líka viss um að þetta er tæki sem verður mikið meira notað í framtíðinni.  'Eg veit að ég á eftir að gera mikið af þessu.

Thursday, January 10, 2008

Ólæsi nemenda

Þar sem að ég smá saman öðlast reynslu á vandamálum tengdum kennslunni, hef ég komist að einu mjög furðulegu. Fyrst hélt ég að nokkrir nemendur mínir væru bara mjög slakir í dönsku og furðaði mig á hvernig kennslu þau hefðu fengið áður. En nú er ég búin að sjá að það hefur ekkert með fagið né kennsluna að gera. Það eru ótrúlega margir krakkar sem skilja ekki það sem þau lesa og þá skiptir engu hvort að það sé á dönsku eða íslensku. Þau kunna alveg að lesa en lesskilningurinn er núll. Þau lesa setningarnar en þau meðtaka ekki merkingu orðanna. Þessir krakkar eiga í vandræðum með öll fög þar sem einhvers lesturs er krafist.
Ég var því miður ekki búin að fatta þetta á síðasta foreldrafundi, því að þá voru nokkrir foreldrar sem að spurðu mig hvernig hægt væri að hækka krakkana þeirra á lesskilningsprófum. Ég benti þeim á að það eina sem að dugaði væri að þau læsu fullt af bókum, en ég var ekki tilbúin spurningunni, né svörum foreldranna. Flestir kinkuðu bara kolli yfir þessu svari en ég fann að svarið var ekki það sem þau vildu fá. Einn pabbinn sagði meira að segja að það væri alls ekki hægt að fá börn til að lesa lengur og vildi fá annað svar. En það er bara ekkert annað svar. Í dag hefði ég getað svarað þessu miklu betur, en inntakið væri enn að börn þurfa að lesa og lesa mikið.
Mínir krakkar voru alltaf dugleg að lesa þegar þau voru yngri og þó að það hafi minnkað mikið hjá þeim tveimur eldri, þá eiga þau það til að lesa ennþá. Ég hef líka aldrei orðið vör við að þau skilji ekki það sem þau lesa og hef aldrei séð á umsögnum úr skólunum að það vanti upp á lesskilninginn.
Þar sem ég er sjálf mikill bókaormur var það kannski eðlilegt að krakkarnir mínir hefðu smitast eitthvað, en ég er nokkuð viss um að það sem að hefur hjálpað þeim var að ég las alltaf fyrir þau þegar þau voru lítil. Þannig varð lesturinn hluti af því að fara að sofa. Ég er meira að segja svo biluð í bókakaupum að þegar elsta barnið mitt var í 6 ára bekk átti hún að telja hve margar bækur hún átti. Hún átti þá 106 bækur, mistórar og þykkar og höfðum við lesið þær allar. Mér fannst þá sjálfri að þetta væri nú kannski ekki alveg eðlilegur fjöldi ;Þ
En þetta allt ýtir undir þá skoðun mína að bækur þurfa að vera stór hluti af uppvexti barna, jafnmikið nú og áður.