Þar sem að ég smá saman öðlast reynslu á vandamálum tengdum kennslunni, hef ég komist að einu mjög furðulegu. Fyrst hélt ég að nokkrir nemendur mínir væru bara mjög slakir í dönsku og furðaði mig á hvernig kennslu þau hefðu fengið áður. En nú er ég búin að sjá að það hefur ekkert með fagið né kennsluna að gera. Það eru ótrúlega margir krakkar sem skilja ekki það sem þau lesa og þá skiptir engu hvort að það sé á dönsku eða íslensku. Þau kunna alveg að lesa en lesskilningurinn er núll. Þau lesa setningarnar en þau meðtaka ekki merkingu orðanna. Þessir krakkar eiga í vandræðum með öll fög þar sem einhvers lesturs er krafist.
Ég var því miður ekki búin að fatta þetta á síðasta foreldrafundi, því að þá voru nokkrir foreldrar sem að spurðu mig hvernig hægt væri að hækka krakkana þeirra á lesskilningsprófum. Ég benti þeim á að það eina sem að dugaði væri að þau læsu fullt af bókum, en ég var ekki tilbúin spurningunni, né svörum foreldranna. Flestir kinkuðu bara kolli yfir þessu svari en ég fann að svarið var ekki það sem þau vildu fá. Einn pabbinn sagði meira að segja að það væri alls ekki hægt að fá börn til að lesa lengur og vildi fá annað svar. En það er bara ekkert annað svar. Í dag hefði ég getað svarað þessu miklu betur, en inntakið væri enn að börn þurfa að lesa og lesa mikið.
Mínir krakkar voru alltaf dugleg að lesa þegar þau voru yngri og þó að það hafi minnkað mikið hjá þeim tveimur eldri, þá eiga þau það til að lesa ennþá. Ég hef líka aldrei orðið vör við að þau skilji ekki það sem þau lesa og hef aldrei séð á umsögnum úr skólunum að það vanti upp á lesskilninginn.
Þar sem ég er sjálf mikill bókaormur var það kannski eðlilegt að krakkarnir mínir hefðu smitast eitthvað, en ég er nokkuð viss um að það sem að hefur hjálpað þeim var að ég las alltaf fyrir þau þegar þau voru lítil. Þannig varð lesturinn hluti af því að fara að sofa. Ég er meira að segja svo biluð í bókakaupum að þegar elsta barnið mitt var í 6 ára bekk átti hún að telja hve margar bækur hún átti. Hún átti þá 106 bækur, mistórar og þykkar og höfðum við lesið þær allar. Mér fannst þá sjálfri að þetta væri nú kannski ekki alveg eðlilegur fjöldi ;Þ
En þetta allt ýtir undir þá skoðun mína að bækur þurfa að vera stór hluti af uppvexti barna, jafnmikið nú og áður.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment