Tuesday, April 29, 2008

Heimavinna

Eftir að hafa verið lengi í háskólanámi, finnst manni heimavinna vera mikill partur af náminu. Kannski er það vegna þess að ég er að verða gömul kona og vil gera vel, fyrst að ég nú að þessu á annað borð. En umræðan um heimavinnu yfir höfuð er á öðrum nótum. Alls staðar er verið að tala um hvort að skólinn eigi að fara niður á það plan sem nemendur virðast flestir vera á, þ.e.a.s. gera ekki heimavinnuna sína. Þau eru of upptekin við annað, s.s. félagslíf, íþróttir og vinnu. Hvernig yrði háskólaumhverfið ef að nemendur lærðu aldrei heima?
Rannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt að það hefur ekkert upp á sig að setja heimavinnu fyrir nemendur á aldrinum 6-11 ára. Krakkar sem hafa heimavinnu á þeim aldrei, sýna ekkert betri árangur en þau sem ekki þurfa að vinna heima. En þessar rannsóknir sýna líka að það er munur á eldri nemendum sem læra heima og þeim sem aldrei gera það. Þannig að ég er að velta fyrir mér hvort að maður eigi að túlka rannsóknirnar þannig að skólarnir eigi ekki að láta yngri nemendur fá heimavinnu (því það veldur óþarfa stressi) og demba þeim á þegar þau verða 12 ára; eða hvort að þau eigi að vera alltaf með heimavinnu (það skaðar kannski ekkert) til að venja þau við heimalærdóminn frá byrjun. 
Ef að maður er búin að vera í skóla í 6 ár (1-6bekk) án þess að læra heima og samt fengið fínar umsagnir/einkunnir, af hverju ætti maður þá allt í einu að fara að læra heima í staðinn fyrir að leika sér?  Er ekki verið að biðja nemendur um að sýna af sér óeðlilegan aga.  Krakkar vilja leika sér og eru ekkert að spá í framtíðina, fyrr en kannski í 10.bekk. Mín skoðun er sú að smá heimavinna sé nauðsynleg frá byrjun, bara til að venja þau við. Þannig að þegar þau koma svo upp í framhaldsskólana og háskóla, séu þau með rútínu sem hjálpar þeim að takast á við námið.  En þetta er mín skoðun og alls ekki allra.  Fjölmiðlar blása upp fréttir af óþarfa heimavinnu og láta aldrei fylgja með að hún sé nauðsynleg eldri nemendum. Það er líka meiri frétt að skólarnir séu að brjóta niður nemendur með óeðlilegri heimavinnu, heldur en að hún komi þeim til góða.  

No comments: